Fótbolti

Hentu ferða­töskum inn á völlinn í miðjum leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vladimir Cheburin hefur gert liðið þrisvar sinnum að meisturum á síðustu árum.
Vladimir Cheburin hefur gert liðið þrisvar sinnum að meisturum á síðustu árum. EPA/Tamas Kovacs

Stuðningsmenn litáensku meistaranna í Zalgiris Vilnius eru ekki ánægðir með gengi liðsins í sumar og vilja endilega losna við þjálfarann. Þeir sýndu óánægju sína með mjög frumlegum hætti.

Zalgiris Vilnius vann litáensku deildina í fyrra, í fjórða sinn á fimm árum. Vladimir Cheburin hefur þjálfað liðið síðan í janúar 2021 og gert liðið þrisvar að meisturum.

Í sumar hefur lítið gengið og eftir að liðið féll út úr Sambandsdeildinni á móti norður-írska félaginu Linfield þá þótti stuðningsmönnum vera nóg komið.

Liðið er bara í sjötta sæti deildarinnar og hefur aðeins unnið átta af 23 deildarleikjum sínum.

Stuðningsmennirnir vilja endilega losna við Cheburin þjálfara. Þeir vilja að hann taki pokann sinn eða réttara sagt pakki í ferðatöskuna sína.

Fjölmargir stuðningsmenn mættu á leik liðsins á dögunum vopnaðir ferðatösku. Enginn þeirra var stoppaður í innganginum og þeir ákváðu síðan að henda töskunum sínum inn á völlinn í miðjum leik, allir sem einn og á sama tíma.

Cheburin sjálfur hafði gaman af frumlegu uppátæki stuðningsmannanna og klappaði fyrir þeim eins og sjá má í myndbandinu hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×