Íslenski boltinn

Matt­hías ekki lengi ein­samall hjá Val

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hallgrímur Heimsson hefur verið að gera flotta hluti á bak við tjöldin hjá Val en núna stígur hann fram í sviðsljósið.
Hallgrímur Heimsson hefur verið að gera flotta hluti á bak við tjöldin hjá Val en núna stígur hann fram í sviðsljósið. Valur

Hallgrímur Heimisson, yfirþjálfari yngri flokka Vals og þjálfari 3. flokks karla í fótbolta, hefur ákveðið að taka slaginn með Matthíasi Guðmundssyni og Valsstelpunum í Bestu deild kvenna.

Kristján Guðmundsson þjálfaði Valsliðið ásamt Matthíasi en hætti um mánaðamótin. Valsmenn segja frá því að Hallgrímur mun þjálfa liðið ásamt Matthíasi út tímabilið og Matthías er því ekki lengur einsamall.

„Það er frábært að Halli ætli að taka slaginn með Matta og stelpunum. Þessi ákvörðun Kristjáns kom óvænt upp og við erum afar þakklát Halla fyrir að stíga inn í þetta og hjálpa liðinu í síðustu leikjum sumarsins,“ sagði Styrmir Þór Bragason varaformaður knattspyrnudeildar Vals, við miðla Vals.

Hallgrímur skoraðist ekki undan þegar leitað var til hans. Faðir hans, Heimir Hallgrímsson, fékk einmitt sína fyrsta reynslu af þjálfun í efstu deild þegar hann tók við kvennaliði ÍBV á sínum tíma.

„Þegar félagið leitar til manns er erfitt að skorast undan. Mér þykir mjög vænt um Val og kvennaliðið og tel að ég geti hjálpað Matta og stelpunum í að enda þetta á jákvæðum nótum. Valsliðið er miklu betra en mörg úrslit sumarsins gefa til kynna og það verður spennandi að takast á við bæði leiki í evrópukeppninni og síðan lokaleiki deildarinnar,“ sagði Hallgrímur.

Fyrsti leikur þeirra Matthíasar og Hallgríms saman verður einmitt í kvöld þegar Valur tekur á móti Stjörnunni.  Valskonur ná fjórða sæti deildarinnar með sigri en þær hafa unnið þrjá af síðustu fjórum leikjum sínum í Bestu deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×