Golf

Bæði syst­kinin í lokaráshóp á loka­degi Ís­lands­mótsins í golfi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Systkinin Dagbjartur Sigurbrandsson og Perla Sól Sigurbrandsdóttir verða bæði í lokaráshópum á lokadeginum.
Systkinin Dagbjartur Sigurbrandsson og Perla Sól Sigurbrandsdóttir verða bæði í lokaráshópum á lokadeginum. GSÍ myndir

Íslandsmótið í golfi klárast á Hvaleyrinni í dag. Þetta er stór dagur fyrir eina fjölskyldu sem á tvo fulltrúa í baráttunni um Íslandsmeistaratitlana.

Systkinin Dagbjartur Sigurbrandsson og Perla Sól Sigurbrandsdóttir verða bæði í lokaráshópum á lokadeginum.

Hin nítján ára Perla Sól verður í lokaráshóp hjá konunum með Huldu Clöru Gestsdóttur og Guðrúnu Brá Björgvinsdóttur. Þær fara af stað klukkan 12.56.

Hinn 23 ára Dagbjartur verður í lokaráshóp hjá körlunum með Axel Bóassyni og Aroni Snæ Júlíussyni. Þeir fara af stað klukkan 12.34.

Perla Sól er á sex höggum yfir pari eftir þrjá daga, sex höggum á eftir Huldu og einu höggi á eftir Guðrúnu.

Dagbjartur er á fimm höggum undir pari, tveimur höggum á eftir Axel og tveimur höggum á undan Aroni.

Þau systkinin eru samt ekki í sama golfklúbbi, því Perla er í Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar en Dagbjartur er í Golfklúbbi Reykjavíkur.

Dagbjartur hefur aldrei orðið Íslandsmeistari en Perla varð Íslandsmeistari fyrir þremur árum síðan. Þá var hún aðeins fimmtán ára og sama ár varð hún síðan Evrópumeistari sextán ára og yngri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×