Fótbolti

Orri Steinn fær portúgalska sam­keppni

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Goncalo Guedes mun veita Orra Steini samkeppni um framherjastöðuna.
Goncalo Guedes mun veita Orra Steini samkeppni um framherjastöðuna. getty

Real Sociedad er að ganga frá kaupum á portúgalska framherjanum Goncalo Guedes frá enska úrvalsdeildarliðinu Wolves. Íslenski landsliðsfyrirliðinn Orri Steinn Óskarsson fær því enn frekari samkeppni um framherjastöðuna hjá spænska félaginu.

Guedes hefur verið hjá Wolves síðan 2022 og mest spilað sem framherji en hann getur einnig verið úti á vængjunum, helst vinstra megin.

Wolves keypti hann á um þrjátíu milljónir evra en lætur hann fara fyrir mun minna, um fjórar milljónir evra samkvæmt The Athletic sem segir kaupin svo gott sem frágengin.

Portúgalinn náði aldrei að uppfylla væntingar hjá Wolves og var sendur að láni til uppeldisfélagsins Benfica seinni hluta tímabilsins 2023. Á síðasta tímabili sýndi hann þó ágætis takta, skoraði fimm mörk og lagði upp önnur fimm, í 33 leikjum í öllum keppnum.

Wolves hefur hins vegar ákveðið að leita á önnur mið og endurnýjað leikmannahópinn mikið í sumar.

Guedes verður annar leikmaðurinn sem Real Sociedad kaupir í sumar, ásamt varnarmanninum Duje Caleta-Car frá Lyon í Frakklandi. Félagið á enn eftir að fylla í miðjumannaskarðið sem Martin Zubimendi skildi eftir sig.

Vænta má þess, þrátt fyrir kaupin á Guedes, að Orri Steinn verði aðalframherji liðsins. Hann var keyptur fyrir mun meiri pening í fyrra og er ætlað stórt hlutverk undir nýjum þjálfara á næsta tímabili, eftir að hafa tekið sér góðan tíma til að aðlagast á síðasta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×