Handbolti

Blær og fé­lagar „niður­lægðir“ á undir­búnings­tíma­bilinu

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Nýi þjálfari Leipzig, Raul Alonso, fer ekki vel af stað í starfi.
Nýi þjálfari Leipzig, Raul Alonso, fer ekki vel af stað í starfi. sportbild

Blær Hinriksson og nýju liðsfélagar hans í þýska handboltaliðinu Leipzig voru „niðurlægðir“ af neðri deildar liði á undirbúningstímabilinu og í fyrsta sinn frá upphafi unnu þeir ekki Saxlandsbikarinn.

Saxlandsbikarinn er óformlegt mót sem haldið er á hverju ári milli handboltaliðanna þriggja í Saxlandi í Þýskalandi. Leipzig er eina úrvalsdeildarliðið af þeim þremur og hefur alltaf unnið bikarinn.

Ekki þetta árið hins vegar. Eftir að hafa rétt sloppið með 37-34 sigur gegn þriðju deildar liðinu Aue mættu þeir annarrar deildar liði HC Elbflorenz og töpuðu með átta mörkum, 27-35.

Þýski miðillinn SportBild fjallar um frammistöðu Leipzig í leikjunum tveimur og talar um „algjöra niðurlægingu“, í gegnum tíðina hafi þessir leikir bara verið formsatriði fyrir Leipzig að klára.

Nýi þjálfarinn, Raul Alonso, sem tók við af Rúnari Sigtryggssyni fer því ekki vel af stað í starfi.

Blær átti hins vegar ágætis leik og var næstmarkahæstur hjá Leipzig með fimm mörk, á eftir William Bogojevic sem skoraði sex. Blær er aðeins nýgenginn til liðs við Leipzig og enn að komast inn í hlutina. 

Leikir á undirbúningstímabilum gefa líka oft ranga mynd af því sem koma skal. Leipzig fær tækifæri til að bæta um betur á næstu dögum því framundan er annað æfingamót með MT Melsungen, HSG Wetzlar og TV Hüttenberg. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×