Íslenski boltinn

Skoraði ekki í leiknum en dómararnir skráðu samt á hana tvö mörk

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það geta ekki allir skorað þegar þeir eru ekki inn á vellinum en Áslaugu Mundu Gunnlaugsdóttur tókst það í gærkvöldi samkvæmt leikskýrslu KSÍ.
Það geta ekki allir skorað þegar þeir eru ekki inn á vellinum en Áslaugu Mundu Gunnlaugsdóttur tókst það í gærkvöldi samkvæmt leikskýrslu KSÍ. Getty/Pat Elmont

Blikinn Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir var á skotskónum í undanúrslitum Mjólkurbikars kvenna í fótbolta í gær. Það er ef þú skoðar leikskýrsluna. Ef þú horfðir á leikinn þá passar það ekki alveg enda hún ekki einu sinni inn á vellinum þegar annað markanna var skorað.

Breiðablik vann 3-2 sigur á Lengjudeildarliði ÍBV sem veittu toppliði Bestu deildarinnar óvænta keppni. Breiðablik tryggði sér sæti í bikarúrslitaleiknum á móti FH.

Staðfest leikskýrsla Knattspyrnusambands Íslands úr leik Breiðabliks og ÍBV.KSÍ

Áslaug Munda kom inn á sem varamaður í hálfleiknum þegar Breiðablik var 1-0 undir. Blikar lentu 2-0 undir en komu til baka og tryggðu sér sigurinn í blálokin.

Áslaug Munda er skráð, á staðfestri leiksskýrslu dómaranna, hafa skorað annað mark Breiðabliks á 53. mínútu og einnig sigurmarkið í uppbótatíma leiksins. Hún var meira að segja farin af velli þegar sigurmarkið var skorað.

Hið rétta er að Berglind Björg Þorvaldsdóttir jafnaði metin og Barbára Sól Gísladóttir skoraði sigurmarkið. Báðar skoruðu þær með skalla.

Í fyrra markinu þó byrjar Áslaug Munda sóknina en á ekki stoðsendinguna og er ekki inn í vítateig þegar markið er skorað úr markteignum. Hún stendur meira segja við hlið dómarans og þau horfa saman á Berglindi skalla boltann í markið. 

Berglind og Barbára munu væntanlega láta heyra í sér og láta breyta þessu. Sönnunina má sjá hér fyrir neðan þar sem sjá má bæði þessi mörk.

Áslaug Munda hefur ekki skorað mark í deild eða bikar á Íslandi síðan 10. júní 2022 eða í meira en þrjú ár. Það breytist væntanlega ekki nema að dómaratróið vilji halda þessu til streitu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×