Fótbolti

Hafnaði Los Angeles og valdi frekar Vancouver

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Thomas Müller vill reyna fyrir sér í bandarísku deildinni eftir að hafa verið í aldarfjórðung hjá Bayern München.
 Thomas Müller vill reyna fyrir sér í bandarísku deildinni eftir að hafa verið í aldarfjórðung hjá Bayern München. Getty/Michael Regan

Þýski knattspyrnumaðurinn Thomas Müller endaði 25 ára feril sinn hjá Bayern München í sumar en hann er ekki hættur í fótbolta.

Hinn 35 ára framherji ætlar að reyna fyrir sér hinum megin við Atlantshafið. Það var mikill áhugi á honum  meðal bandaríska félaga.

Athygli vakti að Müller vildi ekki semja við Los Angeles FC en valdi það frekar að fara til kanadíska liðsins Vancouver Whitecaps sem spilar einnig í bandarísku MLS-deildinni.

Müller vildi frekar spila með liðinu sem fyrrum liðsfélagi hans hjá Bayern, Alphonso Davies, hóf meistaraflokksferil sinn.

Müller mun skrifa undir tveggja ára samning við kanadíska félagið. Hann verður stærsta evrópska nafnið til að spila fyrir félagið.

Hann verður launahæsti leikmaður liðsins með 6,6 milljónir evra í árslaun eða 942 milljónir króna.

Vancouver þurfti ekki aðeins að semja við Müller sjálfan þótt að hann kæmi á frjálsri sölu.

FC Cincinnati átti nefnilega réttinn á leikmanninum í MLS deildinni þrátt fyrir að hann hafi aldrei komið nálægt því félagi. Talið er að Vancouver þurfi að borga um fjögur hundruð þúsund dollara fyrir Müller eða næstum því fimmtíu milljónir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×