Fótbolti

Vinna með lög­reglunni eftir að Carter varð fyrir kynþáttaníð

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Enska knattspyrnusambandið vinnur nú með lögreglunni eftir að Jess Carter varð fyrir kynþáttaníð.
Enska knattspyrnusambandið vinnur nú með lögreglunni eftir að Jess Carter varð fyrir kynþáttaníð. Harry Langer/DeFodi Images/DeFodi via Getty Images

Forráðamenn enska kvennalandsliðsins í knattspyrnu hafa sett sig í samband við lögregluna eftir að Jess Carter, varnarmaður liðsins, varð fyrir kynþáttaníð á Evrópumótinu sem nú fer fram í Sviss.

Carter hefur greint frá því að hún ætli að taka sér hlé frá samfélagsmiðlum á meðan málið gengur yfir og liðsfélagar hennar ætla að hætta að krjúpa á hné fyrir leiki. Þær segja að fótboltayfirvöld þurfi að finna aðra og betri leið til að takast á við kynþáttafordóma.

Þá hefur enska knattspyrnusambandið sagt að það sé að vinna með lögreglunni til að „ganga úr skugga um að þau sem beri ábyrgð á þessum hatursglæp verði dregnir fyrir rétt.“

„Frá því að mótið hófst hef ég þurft að þola mikla kynþáttafordóma,“ sagði Carter um málið.

„Ég veit að allir stuðningsmenn eiga rétt á sinni skoðun um úrslit og það hvernig liðið og leikmenn standa sig, en mér finnst ekki í lagi að ráðast á útlit eða kynþátt einstaklinga.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×