Golf

Reyndi allt til að koma kúlunni niður

Valur Páll Eiríksson skrifar
Niður vildi blessuð golfkúlan ekki.
Niður vildi blessuð golfkúlan ekki. Skjáskot

Áhorfendur á Opna breska meistaramótinu í golfi skelltu upp úr þegar Justin Thomas fór nýstárlegar leiðir til að koma kúlunni í holuna í dag.

Púttaði fyrir fugli á þriðju braut í morgun en kúlan nam staðar á ystu nöf holunnar. Það virtist sem ein sterk vindkviða til eða frá gæti sagt til um fugl eða par.

Leikrænir tilburður Thomas í kjölfarið þar sem hann reyndi að hafa áhrif á vindinn og fá æðri máttarvöld með sér í lið vöktu mikla kátínu viðstaddra. Einhverjir hafa líkt töktunum við Harry Potter og aðrir við tilraun til að nýta máttinn líkt og í Stjörnustríðsmundunum.

Því miður fyrir bandaríska kylfinginn dugði það skammt til að koma kúlunni niður.

Thomas þurfti lítið annað en að pota í kúluna með kylfunni til að slá fyrir parinu en fuglinn varð að bíða.

Thomas lék þó á tveimur undir pari vallar í dag eftir að hafa verið einum yfir í gær. Hann er sem stendur jafn í 25. sæti mótsins og þarf litlar áhyggjur að hafa af niðurskurðinum í lok annars hrings í kvöld.

Myndskeið af atvikinu má sjá að ofan.

Bein útsending frá Opna breska stendur yfir á Sýn Sport 4 og mun vara langt fram á kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×