Fótbolti

Mbeumo gengur til liðs við Manchester United

Bjarki Sigurðsson skrifar
Bryan Mbeumo, til vinstri á mynd, mun spila með Manchester United á næsta tímabili.
Bryan Mbeumo, til vinstri á mynd, mun spila með Manchester United á næsta tímabili. Getty/Alex Pantling

Manchester United hefur fest kaup á sóknarmanninum Bryan Mbeumo frá Brentford. Félagið borgar um sjötíu milljónir punda í heildina fyrir leikmanninn. Fjölmörg lið höfðu áhuga á kappanum en hann er sagður einungis hafa viljað ganga til liðs við United. 

Margir af virtustu íþróttablaðamönnum heims greina frá félagsskiptunum, þar á meðal Fabrizio Romano og David Ornstein. Skiptin hafa átt sér langan aðdraganda en félögunum tókst að lokum að ná saman um kaupverð. 

Mbeumo, sem spilar alla jafna á hægri kanti, gekk til liðs við Brentford árið 2019 og skoraði 65 mörk í 222 leikjum fyrir félagið. Hann skoraði tuttugu mörk í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili, sem var hans besta tímabil fyrir félagið. 

Þetta eru þriðju kaup Manchester United í sumar, en félagið hafði þegar tryggt sér krafta hins brasilíska Matheus Cunha frá Wolves og Paragvæjans unga Diego León, frá Cerro Porteño. Fjölmiðlar ytra greina frá því að félagið vilji einnig losa sig við nokkra leikmenn í glugganum en það hefur ekki tekist hingað til, séu frátaldir Victor Lindelöf, Christian Eriksen og Jonny Evans en samningar þeirra þriggja runnu allir út við lok tímabilsins.

Síðasta tímabil reyndist United-mönnum ansi erfitt og enduðu þeir í fimmtánda sæti deildarinnar, ásamt því að tapa úrslitaleik Evrópudeildarinnar gegn Tottenham, sem áttu enn erfiðara tímabil í deildinni og enduðu í sautjánda sæti. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×