Fótbolti

Lamine Yamal í vand­ræðum eftir af­mælis­veisluna sína

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lamine Yamal braut spænsk lög með því að ráða dverga til að skemmta í veislunni sinni.
Lamine Yamal braut spænsk lög með því að ráða dverga til að skemmta í veislunni sinni. Getty/Sebastian Widmann

Spænska undrabarnið Lamine Yamal hélt upp á átján ára afmælið sitt um helgina með glæsibrag en skemmtiatriðin í veislunni fóru fyrir brjóstið á mörgum.

Nú hafa samtök smávaxins fólks á Spáni stigið upp og ákveðið að kæra Yamal fyrir lögbrot.

Veislan var vissulega af stærri gerðinni, haldin út í sveit og enginn gestanna mátti taka með snjallsíma eða myndavélar. Það svindluðu þó einhverjir á þeirri reglu.

Þarna mátti sjá fótboltastjörnur, poppstjörnur, töframenn, tröllkarla, áhrifavalda, lifandi tónlist og það vantaði ekkert upp á veitingar eða íburð.

Vandamálið er að það fréttist af því að Yamal hafi ráðið dverga til þess að skemmta gestum en það er stranglega bannað á Spáni. Marca segir frá.

Samtök smávaxins fólks á Spáni eru mjög ósátt með Yamal og vilja fara með hann fyrir dómara. Lögin banna að nota fólk með fötlun til þess að skemmta því það sé lítillækkandi og niðurlægjandi fyrir þau.

Það kostaði fjörutíu þúsund evrur á viku að leigja húsið þar sem veislan fór fram eða tæpar sex milljónir. Ekki fylgir sögunni hvað hann borgaði dvergunum fyrir að skemmta.

Yamal fékk margar flottar gjafir. Dóminíski söngvarinn El Alfa kom meðal annars færandi hendi í veisluna og gaf Yamal rándýrt hálsmenn í afmælisgjöf.

„Fjögur hundruð þúsund evrur um hálsinn á þér. Guð blessi þig. Til hamingju goðsögn,“ skrifaði tónlistarmaðurinn á samfélagsmiðla. Þetta var því hálsmenn upp á 57 milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×